Þjónusta og samstarf

Hefðbundnir notendafundir lágu að mestu niðri á meðan kórónuveirufaraldurinn geisaði en þeir voru endurvaktir á árinu. Þar sem rafrænn fundarbúnaður hafði gefist einstaklega vel í faraldrinum var ákveðið að notast áfram við hann en það sýndi sig að þetta fyrirkomulag skilaði betri mætingu á fundina.

 

Ólafur Arnar Þórðarson, sviðsstjóri stjórnsýslu og samstarfs.

 
 

Ráðgjafanefndir og faghópar

Á árinu 2022 hélt Hagstofan áfram að vinna að eflingu tengsla og þjónustu við íslenskt vísindasamfélag. Umboð aðferðafræðiráðs var endurnýjað og í kjölfarið fundað með ráðinu. Hagstofan hefur einnig leitast við að styðja við faghópa utan hennar. Þannig situr fulltrúi Hagstofunnar nú í bakhópi fyrir klasa 4 í Europe Horizon og í stjórn Inniviðasjóðs Rannís.

 
 

Rannsóknasamstarf

Í byrjun árs 2022 fékk Hagstofan uppbyggingastyrk úr Innviðasjóði til þess að setja upp rafræna innviði sem veitir rannsakendum aðgang að örgögnum stofnunarinnar. Meginmarkmið með uppbyggingu slíks rannsóknarumhverfis er að auka gæði gagna í félags-, heilbrigðis- og menntavísindum með því að veita rannsakendum öruggt aðgengi að gögnum Hagstofunnar.

Aðgengi rannsakenda að fyrirliggjandi gögnum Hagstofunnar í rafrænum rannsóknarinnviðum mun gera rannsakendum kleift að taka þátt í styrktum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem byggja á sambærilegum gögnum og draga úr kostnaði við gagnasöfnun í styrktum innlendum verkefnum.

Þá var Hagstofa aðili að einni umsókn í Öndvegissjóð Rannís. Á árinu 2022 vottaði Hagstofan einn bakhjarl, Háskólann á Akureyri, og því hafa rannsakendur á vegum hans heimild til að sækja um aðgang að örgögnum Hagstofunnar til vísindalegra rannsókna. Þá afgreiddi Hagstofan sex umsóknir um slíkan aðgang. Einn meistaranemi vann að lokaverkefni sínu á grundvelli gagna frá Hagstofunni en verkefnið var unnið í samvinnu við Önnu Helgu Jónsdóttur, dósent við raunvísindadeild Háskóla Íslands, sem einnig á sæti í aðferðafræðiráði Hagstofunnar.

Hagstofan endurnýjaði á árinu samkomulag um samstarf við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands um aðgang nemenda í framhaldsnámi að aðstöðu, gögnum og aðstoð sérfræðinga við vinnu að fyrirfram ákveðnum og vel skilgreindum verkefnum í tengslum við nám sitt.

Einnig gerði Hagstofan og viðskiptadeild Háskólans á Bifröst með sér samkomulag um aukið samstarf á sviði rannsókna.

Notendur

Hagstofan leggur sem fyrr mikla áherslu á að eiga góð samskipti við notendur hagtalna. Síðla árs 2022 voru settir á dagskrá fimm fundir með notendahópum og áætlað var að þeir myndu fara fram í lok nóvember og byrjun desember. Einungis einn fundur náðist þó í desember en fjórir færðust til janúar 2023.

Á notendafundum er leitast við að fá endurgjöf á hvað notendur séu ánægðir með og hvað þeir telji að betur megi fara. Fundirnir heppnuðust vel og var almennt góð endurgjöf og umræða á fundunum.

Hagstofunni gafst auk þess færi á að sýna betur ýmsa notkunarmöguleika og útskýra ýmsa þætti sem notendur voru að velta fyrir sér. Á miðju næsta ári verður tekið saman fréttabréf um framgang helstu umbótahugmynda hvers notendahóps og miðlað til viðkomandi hóps þannig að notendur geti fylgst með því hvernig verkefnum miðar. Endurgjöf notenda var jafnframt mikilvægt innlegg í stefnumótun Hagstofunnar fyrir árið 2023.

 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs og Ólafur Arnar Þórðarsson, sviðsstjóri stjórnsýslu og samstarfs hjá Hagstofunni skrifa undir samkomulag um samstarf Hagstofunnar við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

 
 

Enn eykst ánægja notenda með Hagstofu Íslands

Sjötta notendakönnun Hagstofu Íslands var framkvæmd í desember 2022. Áður höfðu notendakannanir verið gerðar árin 2009, 2013, 2015, 2017 og 2020. Svarendur í þessari könnun voru þeir sem eru í fréttaáskrift hjá Hagstofunni og því er um hánotendur að ræða í flestum tilfellum.

Meginmarkmið könnunarinnar var að kanna hug notenda til Hagstofunnar og mat þeirra á gæðum opinberra íslenskra hagtalna. Ánægjumæling ársins 2022 var sú hæsta frá því að mælingar á ánægju notenda stofnunarinnar hófust árið 2009 eins og sést á myndinni.

Ánægja notenda var mæld á tvo vegu, annars vegar var mæld ánægja með hagtölur Hagstofunnar og hins vegar var mæld ánægja með þá þjónustu sem stofnunin veitir. Góður meirihluti svarenda var ánægður með hagtölur Hagstofunnar en 73% voru nokkuð eða mjög ánægðir með þær. Þegar kom að þjónustunni voru 68% nokkuð eða mjög ánægðir með þjónustuna.

Þegar svörum þátttakenda, um það hversu ánægðir þeir voru með þær hagtölur og þá þjónustu sem Hagstofan veitir, var umbreytt yfir í gildi á bilinu 0-10 kom í ljós að ánægja með þjónustu mældist að meðaltali 7,9 og ánægja með hagtölur mældist að meðaltali 7,8.

 
 

Gæða og öryggismál

Stjórnkerfi fyrir upplýsingaöryggi hjá Hagstofu Íslands hefur verið vottað samkvæmt ISO 27001-staðli frá árinu 2016. Úttekt á stjórnkerfi er gerð árlega en á þriggja ára fresti er allsherjar úttekt til endurvottunar. Allsherjar úttekt á stjórnkerfi Hagstofunnar var gerð á árinu og stóðst stofnunin þau viðmið sem voru til hliðsjónar.

Á árinu var unnið markvisst að því að koma öllum gæðaskjölum tengdum gæða- og öryggismálum inn í gæðakerfi stofnunarinnar en Hagstofan notar kerfið CCQ frá Origo. Innleiðingu annarra gæðaskjala inn í kerfið mun ljúka árið 2023.

Undirbúningur fyrir gæðaúttekt á evrópskri hagskýrslugerð

Hagstofa Íslands vann á árinu að undirbúningi fyrir jafningjamat (e. peer review) sem fram fer á vegum Evrópska hagskýrslusamstarfsins en markmið þess er að meta hvort hagskýrslukerfi landsins sé í samræmi við meginreglur evrópskrar hagskýrslugerðar.

Hagskýrsluyfirvöld í ríkjum Evrópusambandsins og EFTA sem og Eurostat, hagstofa sambandsins, falla undir jafningjamatið sem unnið er af teymum óháðra sérfræðinga og stóð yfir fram í júní 2023 en þá var Hagstofan tekin út. Árlega eru tekin fyrir nokkur lönd og var síðast gerð úttekt á Íslandi árið 2013.

Sem liður í undirbúningi Hagstofunnar fyrir úttektina var haldin starfsmannakynning á verkefninu í október.

 

Sigurjón Leifsson öryggisstjóri útskýrir á töflunni.

Fundur um jafningarýni.