Frá hagstofustjóra

Þau tímamót urðu á árinu 2022 að 1. september lét Ólafur Hjálmarsson af störfum sem hagstofustjóri en hann hafði þá gegnt embættinu í rúm 14 ár eða frá því í febrúar 2008. Ólafi eru þökkuð góð störf í embætti hagstofustjóra.

Í júlí voru fyrirtækjasvið og efnahagssvið sameinuð í eitt svið, efnahags- og fyrirtækjasvið. Með breytingunni var stefnt að meiri samvinnu starfsfólks og betri nýtingu á þekkingu og innviðum. Björn Rúnar Guðmundsson leiddi sameininguna og tók við nýju sviði en hann hefur áralanga reynslu af hagskýrslugerð og stjórnun. Samtímis lét Böðvar Þórisson af störfum en hann hafði stýrt fyrirtækjasviði undanfarin ár eða allt frá stofnun þess. Honum eru þökkuð góð störf við uppbyggingu á fyrirtækjatölfræði og umhverfistölfræði.

Ég var skipuð í embætti hagstofustjóra frá 1. nóvember 2022 en Elsa Björk Knútsdóttir hafði þá setið sem hagstofustjóri í september og október. Ég er með PhLic í tölfræði og hef starfað sem stjórnandi á Hagstofunni frá 2005, síðast sem sviðsstjóri félagsmálasviðs, auk þess að hafa verið forstöðumaður Kjararannsóknarnefndar í 8 ár.

Sem nýr hagstofustjóri hélt ég tvo almenna starfsmannafundi í lok síðasta árs þar sem áhersla var lögð á samtal við starfsfólk og endurnýjaða stöðutöku vegna stefnu Hagstofunnar til næstu ára. Fram kom meðal annars að lögð yrði áherslu á stafræna umbreytingu stofnunarinnar þar sem megináherslan yrði á aðgengilegar upplýsingar og þekkingu og samræmingu á gögnum og ferlum í þekkingarmiðuðu starfsumhverfi.

Hagstofa Íslands var gestgjafi norræna tölfræðingamótsins árið 2022 en það er haldið þriðja hvert ár og skiptast hagstofur Norðurlandanna á að halda mótið. Norrænt samstarf um opinbera hagskýrslugerð hvílir á gömlum grunni og er mótið til marks um verðmæti norræns samstarfs á þessum vettvangi. Hagstofan þakkar norrænum kollegum fyrir komuna og fyrir áhugaverðar kynningar og samtöl.

Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri

 

Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri.