Skýrsla stjórnar

Framkvæmdastjórn hélt 30 fundi á árinu auk þess sem teknir voru upp reglulegir fundir stjórnendateymis með þátttöku allra stjórnenda. Þeir fundir eru fyrst og fremst ætlaðir til upplýsingagjafar og samráðs.

Stjórn Hagstofu Íslands.

Frá vinstri: Ólafur Arnar Þórðarson, Elsa Björk Knútsdóttir, Björn Rúnar Guðmundsson, Ólafur Hjálmarsson og Hrafnhildur Arnkelsdóttir.

 

Fyrirtækjasvið og efnahagssvið voru í júlí sameinuð í eitt svið, efnahags- og fyrirtækjasvið og tók Björn Rúnar Guðmundsson við stjórn á nýju sviði. Samtímis lét Böðvar Þórisson af störfum en hann hafði stýrt fyrirtækjasviði frá stofnun þess.

Ólafur Hjálmarsson lét af störfum sem hagstofustjóri 1. september en hann hafði þá gegnt embættinu í rúm 14 ár eða frá því í febrúar 2008. Hrafnhildur Arnkelsdóttir var skipuð í embætti hagstofustjóra frá 1. nóvember 2022 en Elsa Björk Knútsdóttir staðgengill hagstofustjóra hafði þá setið sem hagstofustjóri í september og október.

Unnið var að framgangi stafrænnar stefnu á árinu og náðust mikilvægir áfangar við umbætur á tækniumhverfi sem eru hluti af stafrænni umbreytingu Hagstofunnar. Enn fremur var unnið að því að skerpa á stefnu Hagstofunnar fyrir tímabilið 2020-2025 þar sem innleiðing stefnunnar hafði dregist vegna kórónuveirufaraldursins.

Unnið var að gerð nýrrar mannauðsstefnu með þátttöku starfsfólks og var ný stefna ásamt aðgerðaáætlun kynnt í september sl.

Smelltu á mynd til að stækka.

Síðustu mánuðir ársins einkenndust af stöðutöku nýs hagstofustjóra með ítarlegum samtölum stjórnenda og starfsfólks um stöðu mála og stefnumið Hagstofunnar. Vænta má niðurstöðu af þeirri vinnu árið 2023.

 

Ólafur Hjálmarsson stígur af sviði.

Hrafnhildur Arnkelsdóttir, nýr hagstofustjóri, fundar með starfsfólki.

 

Félagsmálatölfræði

 

Á sviði félagsmálatölfræði eru unnar hagtölur um vinnumarkað, lífskjör, mannfjölda, manntal, félagsvísa, félagsvernd, heilbrigðismál, karla og konur, börn, húsnæðismál, kosningar, fjölmiðlun og menningu. Enn fremur um laun, launakostnað, tekjur, skuldir, menntun og skólamál.

Mannfjöldi og manntal

Í lok júlí voru fyrst birtar mannfjöldatölur þar sem hægt er að sjá fjölda þeirra sem skilgreina sig sem kynsegin/annað. Einnig var bætt við svæðisflokkun Hagstofunnar og hafin birting á mannfjölda eftir talningasvæðum (42 svæði). Í nóvember voru birtar fyrstu niðurstöður manntals 2021. Manntalið er skráarbundið eins og manntalið fyrir árið 2011. Útgáfur manntalsins 2021 eru brotnar niður eftir efni og í desember var gefin út frétt um mannfjölda eftir bakgrunni. Í úgáfum manntalsins er í fyrsta sinn hægt að skoða mannfjöldann eftir skiptingu íbúa eftir smásvæðum (205 svæði).

Vinnumarkaður

Launa- og vinnumarkaðstölfræði var styrkt með auknu framboði opinberra hagtalna. Í desember var birt ný vísitala, vísitala grunnlauna. Vísitala grunnlauna og launavísitala eru sambærilegar fyrir utan það að þær mæla ólíka launaliði. Í júní urðu upplýsingar um staðgreiðsluskyldar greiðslur hluti af mánaðarlegum opinberum hagtölum. Gögnin byggja í grunninn á staðgreiðsluskrá Skattsins en Hagstofan auðgar gögnin svo hægt sé að greina til dæmis launagreiðslur frá öðrum greiðslum sem eru birtar eftir atvinnugrein ásamt fjölda launagreiðenda og þeim sem fá greidd laun.

Starfaflokkun

Unnið var að útgáfu íslenskrar starfaflokkunar á árinu og og var hún birt í janúar 2023. Íslensk starfaflokkun ÍSTARF21 byggir á alþjóðlegri starfaflokkun, International Standard Classification of Occupations (ISCO-08). ÍSTARF21 var eingöngu gefin út á stafrænu formi og samhliða var unnið að vefsvæði með efnisorðaleit.

Lífskjör og félagsmál

Samráðshópur Hagstofunnar og forsætisráðuneytisins var myndaður til að tryggja reglulega miðlun og áframhaldandi þróun velsældarvísa. Gefið var út eitt sérhefti félagsvísa um lágtekjumörk og skort á efnislegum gæðum á meðal barna á Íslandi. Mánaðarlegt talnaefni úr staðgreiðsluskyldum greiðslum gefur tímanlega vísbendingu um tekjur einstaklinga en talnaefnið er brotið niður á sjö tegundir staðgreiðsluskyldra greiðslna eftir kyni, aldri, búsetu og bakgrunni ásamt talningu á einstaklingum sem fá greiddar staðgreiðsluskyldar greiðslur.

Heilsa

Niðurstöður evrópskrar heilsufarsrannsóknar (EHIS) voru birtar í mars. Rannsóknin er samræmd rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun framkvæmd af hagstofum á Evrópska efnahagssvæðinu. Um 6.500 einstaklingar voru valdir af handahófi og var svarhlutfall um 60%.

Menntamál

Í ágúst var haldinn samnorænn fundur um menntamál Nordisk Statistiktræf om uddannelse í Hannesarholti í Reykjavík. Fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum sátu fundinn og var rætt um menntun á öllum stigum skólakerfisins. Á árinu var í fyrsta sinn birt talnaefni um brautskráningarhlutfall og brotthvarf eftir rekstrarformi háskóla og námssviði, sex árum eftir upphaf náms. Einnig voru birtar í fyrsta sinn upplýsingar um bakgrunn leik- og grunnskólabarna.

Fjölmiðlun og menning

Könnun á fjölmiðlanotkun og menningarástundun landsmanna var undirbúin á árinu þar sem tekið var tillit til margvíslegra félagslegra einkenna, s.s. aldurs, kyns, búsetu og menntunnar. Tilgangur könnunarinnar er að kortleggja fjölmiðlanotkun og menningarástundun landsmanna. Við gerð spurningalista var tekið mið af sambærilegum könnunum á Norðurlöndum.

Lífsmerkjarannsókn

Lífsmerkjarannsókn var framkvæmd á árinu en þar var beitt svokölluðu „random forest“-tölfræðilíkani. Líkanið nýtir margvíslegar upplýsingar úr úrtaksrannsóknum Hagstofunnar og opinberum skrám til þess að spá fyrir um þann fjölda sem býr erlendis þrátt fyrir að vera með skráð lögheimili á Íslandi.

Mannfjöldaspá

Í desember var birt mannfjöldaspá sem byggir á nýjum líkönum um frjósemi, dánartíðni og búferlaflutninga og eru niðurstöðurnar notaðar fyrir heildarmannfjöldaspána. Með nýja tölfræðilíkaninu er hægt að búa til staðbundnar spár og leiðrétta fyrir ofmati á íbúafjölda, t.d. vegna þeirra sem flytja af landi brott án þess að tilkynna búferlaflutninga. Aðferðir við nýju spána voru bornar undir notendur, þar á meðal Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Veitur, Byggðastofnun og fulltrúa sveitarfélaga, sem komu með athugasemdir.

Norræn skýrsla um kórónuveirufaraldurinn

Í júní var birt frétt í tengslum við útgáfu Norrænu kórónuveiruskýrslunnar, The Nordics during the first phases of COVID-19, en gerð skýrslunnar var norrænt samstarfsverkefni sem Hagstofan átti aðild að. Skýrslan fjallaði um þróun helstu hagtalna frá upphafi faraldursins í mars 2020 til loka hans 2021. Markmið skýrslunnar var að meta og bera saman áhrif kórónuveirufaraldursins á efnahagslega og heilsufarslega þætti í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og á Íslandi.

Ráðgjafarnefnd um vinnumarkaðstölfræði

Hagstofan hélt fjóra notendafundi um vinnumarkaðstölfræði á árinu sem hafa það að markmiði að bæta þjónustu og skapa vettvang fyrir umræður um tölfræði tengda vinnumarkaði. Í nefndinni sitja fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, BHM, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytisins auk fulltrúa opinberra spáaðila frá Seðlabanka, Hagstofunni og Vinnumálastofnun.

 

Guðný Hjaltadóttir

Manntalsfögnuður

Ragnar Karlsson

 
 

Efnahags- og fyrirtækjatölfræði

 
 

Á sviði efnahags- og fyrirtækjatölfræði eru unnar hagtölur um auðlinda- og umhverfismál, fyrirtæki, utanríkisverslun, vísitölur sem og þjóðhagsreikninga og opinber fjármál. Einnig eru unnar hagskýrslur um gistinætur og ferðaþjónustu, iðnaðarframleiðslu og landbúnað auk tölfræði um útgjöld til rannsóknar- og þróunarstarfs fyrirtækja og stofnana og tölfræði um nýjungavirkni fyrirtækja.

Umbætur á tölfræði um fyrirtæki

Birtar voru upplýsingar um rekstur og afkomu fyrirtækja í auknu niðurbroti eftir atvinnugreinum. Unnið var að innleiðingu á nýrri rammareglugerð um fyrirtækjatölfræði sem mun hafa víðtæk áhrif á almenna tölfræði um rekstur og viðskipti fyrirtækja. Á árinu var einnig hafin vinna við endurskoðun ÍSAT-atvinnugreinaflokkunar sem áætlað er að taki gildi árið 2025. Breytingar á atvinnugreinaflokkun eiga sér stað með reglulegu millibili í samræmi við almennar breytingar á samfélaginu þar sem atvinnugreinar taka breytingum og nýjar greinar verða til.

Á árinu var unnið að því að bæta þekkingu og greiningu á efnahagslega mikilvægum alþjóðafyrirtækjum. Verkefnið er styrkt af Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) og unnið í samstarfi við hagstofu Írlands. Nokkrir starfsmenn Hagstofunnar sóttu námskeið á Írlandi tengt þessu mikilvæga verkefni.

Hagstofan tók á árinu þátt í verkefni ásamt öðrum norrænum hagstofum varðandi vaxtarfyrirtæki (e. scale up). Verkefnið var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og var skýrsla gefin út á árinu um fjölda slíkra fyrirtækja og efnahagslegt framlag þeirra til hagkerfisins.

Vöru- og þjónustuviðskipti

Í kjölfar innleiðingar á SAD-tollskýrslum (e. Single Administrative Document) hjá Skattinum hefur þurft að endurhanna gagnamóttöku og verklag við yfirferð gagna. Innleidd var aukin sjálfvirkni við úrvinnslu tölfræði um vöru- þjónustuviðskipti þar sem vinnsla var færð úr excel-skjölum yfir í gagnagrunna.

Tölfræði um ferðaþjónustu

Áfram var unnið að birtingu tímanlegra upplýsinga um þróun ferðaþjónustunnar. Eðlilega voru miklar breytingar á ferðaþjónustu eftir lok kórónuveirufaraldursins, framboð gistirýma jókst mikið á nýjan leik og var töluverð áskorun að hafa réttar upplýsingar á hverjum tíma. Skammtímahagvísar greinarinnar eru birtir mánaðarlega og innihalda lykil hagvísa á borð við gistinætur, veltu, neyslu erlendra ferðamanna, starfsmannafjölda, flug, umferð o.fl. Samningur um vinnslu ferðaþjónustureikninga við menningar- og viðskiptaráðuneytið var endurnýjaður á árinu og hefðbundnum útgáfum ferðaþjónustureikninga haldið áfram.

Útgjöld til rannsókna og þróunar

Gerð var rannsókn á útgjöldum til rannsókna- og þróunarstarfs (R&Þ) í hagkerfinu á árinu 2022 þar sem safnað var upplýsingum um raunútgjöld árið 2021 og áætluð útgjöld árið 2022. Jafnframt var safnað upplýsingum um fjölda starfsmanna sem vinna að R&Þ. Á árinu voru einnig birtar niðurstöður um nýjungavirkni fyrirtækja á árunum 2020-2021. Rannsóknirnar eru í samræmi við aðferðarfræði OECD og Eurostat.

Sjávarútvegs- og landbúnaðartölfræði

Á árinu 2022 var birt sérstök samantekt á afkomu landbúnaðar. Birtar voru upplýsingar um rekstur og efnahag nokkurra búgreina brotið niður eftir landssvæði og stærð býla. Vaxandi eftirspurn hefur verið eftir upplýsingum um fiskeldi og var birt sérstök samantekt um framleiðslumagn ásamt upplýsingum um rekstur og starfsmannafjölda í greininni. Miklar alþjóðlegar skuldbindingar eru bæði varðandi sjávarútvegs- og landbúnaðartölfræði. Þessar skuldbindingar hafa nær allar verið uppfylltar með framleiðslu á ýmis konar tölfræði.

Umhverfis- og auðlindatölfræði

Á undanförnum fimm árum hefur umhverfistölfræði verið byggð upp, gögnum skilað til Eurostat og upplýsingar birtar á vef Hagstofunnar. Verkefnið skiptist upp í nokkra hluta og hafa nú nær allar alþjóðlegar skuldbindingar verið uppfylltar. Á árinu 2022 voru birtar fyrstu upplýsingar um umhverfisskatta sem mun framvegis verða árleg tölfræði sem hluti af umhverfisreikningum hagkerfisins. Birtar eru ársfjórðungslegar upplýsingar um útblástur atvinnugreina á gróðurhúsaloftegundum.

Uppbygging á nýju kerfi þjóðhagsreikninga

Þróun og uppbygging á nýju heildarkerfi þjóðhagsreikninga heldur áfram. Verkefnið er rekið á grundvelli sérstakrar fjármögnunar, er hluti af fjárfestingarátaki stjórnvalda og mun standa yfir í nokkur ár en það hófst 2021. Megináherslan hefur verið á að byggja upp nýtt framleiðsluuppgjör sem mun leysa af hólmi núverandi kerfi. Auk þess hafa ýmsir aðrir þættir núverandi vinnslukerfis þjóðhagsreikninga verið endurbættir.

Þjóðhagsreikningar og opinber fjármál

Líkt og á fyrri árum hefur áfram verið unnið að ýmsum þróunar- og umbótaverkefnum tengdum þjóðhagsreikningum og opinberum fjármálum. Gagnaskil og gagnavinnsla opinberra aðila, bæði ríkis og sveitarfélaga, er áfram í þróun með það að markmiði að auka gæði og hagkvæmni við vinnslu hagtalna um opinber fjármál.

Endurskoðun á flokkunarkefni neysluútgjalda

Hafin er undirbúningar fyrir endurskoðun á COICOP-flokkunarkerfinu sem snýr að flokkun neysluútgjalda fyrir sundurliðun á vísitölu neysluverðs og útgjaldaliði fyrir einkaneyslu í þjóðhagsreikningum. Hér er um alþjóðlegt verkefni að ræða en miðað er við að nýtt COICOP-kerfi verði innleitt í opinbera tölfræði árið 2024.

 

Vésteinn Ingibergsson

Ásta Guðmundsdóttir

Marta Daníelsdóttir

Steinunn Bragadóttir

Ásta Jenný Sigurðardóttir

 

Annað

 
 

Þjóðhagsspár

Þrjár þjóðhagsspár komu út á árinu og var útgáfan með hefðbundnara sniði eftir óvissu síðustu ár vegna kórónaveirufaraldursins og þingkosninga. Þjóðhagsspá Hagstofunnar er innlegg í fjárlagaferlið á hverjum tíma og komu vor- og vetrarútgáfur út samhliða birtingu fjármálaáætlunar að vori og fjárlaga að hausti. Á árinu var útliti skýrslunnar sem fylgir útgáfunni breytt og uppfært í samræmi við nýtt útlit á vef Hagstofunnar.

Hagstofan hlaut styrk úr Innviðasjóði Rannís

Hagstofa Íslands hlaut í janúar tæplega 12 milljón króna uppbyggingarstyrk úr Innviðasjóði Rannís til þess að byggja upp rafrænt rannsóknarumhverfi sem auðvelda mun íslensku vísindafólki að nýta sér gögn stofnunarinnar til rannsókna.

Með uppbyggingu slíks rannsóknarumhverfis er bæði hægt að auka gæði gagna í félags-, heilbrigðis- og menntavísindum og gera íslensku vísindafólki kleift að taka þátt í alþjóðlegum rannsóknum sem byggja á sambærilegum gögnum.

R-námskeið

Í maí sáu þrír starfsmenn Hagstofunnar um kennslu netnámskeiðs fyrir starfsfólk í hagskýrslugerð í Evrópu í forritinu R en námskeiðið var skipulagt af Hagstofunni í samstarfi við skrifstofu EFTA. Á námskeiðinu var farið í grundvallaratriði forritsins og hvernig hægt er að nota það við vinnslu, greiningu og birtingu hagtalna. Námskeiðið stóð yfir í fimm daga og alls tóku 29 hagstofustarfsmenn frá 11 Evrópulöndum þátt í því.

 

Bergþór Sigurðsson

 

Hagstofa Íslands hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Elsa Björk Knútsdóttir, settur Hagstofustjóri, tók í október við viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), fyrir hönd Hagstofu Íslands.

Viðurkenningin var veitt þátttakendum í hreyfiaflsverkefninu sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórn en auk FKA stóðu forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Pipar\TBWA og Ríkisútvarpið að verkefninu.

 

Elsa Björk Knútsdóttir

 

Norrænn fundur um menntamálatölfræði

Í kjölfar Norræna tölfræðingamótsins í ágúst var haldinn norrænn fundur um menntamálatölfræði sem fram fór í Hannesarholti. Ásamt Hagstofunni stóðu mennta- og barnamálaráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og Menntamálastofnun einnig að fundinum. Hitann og þungann af undirbúningi báru þau Ásta Urbancic og Haukur Pálsson hjá Hagstofunni og gekk fundurinn mjög vel í alla staði.

 

Norrænn fundur um menntamálatölfræði.

 

Sendinefnd Evrópusambandins heimsækir Hagstofuna

Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi heimsótti Hagstofuna í maí. Eftir stutta kynningu á sal var nefndinni fylgt um húsið og henni sýndur vinnustaðurinn.

 

Sendinefnd Evrópusambandins ásamt starfsmönnum Hagstofunnar.

 

Starfsmannafundur á Hótel Natura

Starfsmannafundur var haldinn á Hótel Natura í apríl. Þar var farið yfir framtíðarsýn og stefnu Hagstofunnar og aðgerðum sem höfðu legið niðri í kórónuveirufaraldrinum komið  í virka framkvæmd.

 

Hópmynd af starfsfólki Hagstofunnar fyrir utan Hótel Natura.

 

Greindu betur

Á árinu 2022 stóð Hagstofa Íslands í fyrsta skiptið fyrir „Greindu betur“ ─ árlegri liðakeppni í tölu- og upplýsingalæsi á meðal ungmenna á aldrinum 14 til 18 ára. Um er að ræða keppni sem er hluti af Evrópsku tölfræðikeppninni og snýst um að efla tölu-og upplýsingalæsi á meðal ungmenna, gefa þeim tækifæri til að efla hæfni sína í að nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt og getu þeirra til að taka upplýstar ákvarðanir.

Árið 2022 voru 223 lið skráð til leiks með samtals 670 ungmennum. Keppt var í tveimur flokkum, A-flokki ungmenna á aldrinum 16-18 ára og B-flokki ungmenna á aldrinum 14-16 ára. Verðlaunin veitti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Fyrstu verðlaun í A-flokki hlaut liðið K2 úr Tækniskólanum en liðið rannsakaði leigumarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Í öðru sæti varð liðið NO-WAY úr Verzlunarskóla Íslands sem kaus að kanna persónubundna þætti sem hefðu áhrif á skoðanir fólks á flugeldum. Í þriðja sæti varð liðið 4I_8 úr Menntaskólanum í Reykjavík sem skoðaði kjör hjúkrunarfræðinga.

Í fyrsta sæti í B-flokki var liðið STARBOYS úr Garðaskóla í Garðabæ sem kannaði áhrif kórónuveirufaraldursins á hagtölur. Annað sætið hlaut liðið KRÚTTIN úr Austurbæjarskóla í Reykjavík sem rannsakaði útbreiðslu klamydíusmita á Íslandi í evrópskum samanburði. Í þriðja sæti varð liðið LJÓSKURNAR, einnig úr Austurbæjarskóla, sem rannsakaði háskólamenntun kynjanna.

Liðin LJÓSKURNAR OG K2 áttu bæði framlag í evrópukeppnina þar sem 19 þjóðir tóku þátt. Liðið K2 náði þeim glæsilega árangri að verða í 2. sæti evrópukeppninnar með myndskeiði um áhrif gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Fram kemur í umsögn dómnefndar keppninnar að um sé að ræða „frábæra tölfræðilega greiningu á ástæðum mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda á mann á Íslandi.“

 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt verðlaunahöfum.