Fjármál og rekstur

Ársvelta Hagstofu Íslands nam 1.953,9 m.kr. og var afkoman neikvæð um 33 milljónir á árinu 2022. Eigið fé Hagstofunnar nam 105,6 m.kr. í árslok og eignir námu samtals 372,4 m.kr.

 

Elsa Björk Knútsdóttir, sviðsstjóri rekstrarsviðs.

 
 

Rekstrartekjur

Heildartekjur Hagstofu Íslands námu 1.953,9 m.kr. og jukust um 6,8% frá fyrra ári. Framlag úr ríkissjóði hækkaði úr 1.587 m.kr. í 1.645 eða um 3,7%. Þar af nam fjárfestingaframlag 21,1 m.kr. og tekjufærsla frestaðra tekna á afskriftum 20,8 m.kr.

Sértekjur Hagstofunnar námu 308,4 m.kr. sem er um 27% hækkun á milli ára en árið áður voru sértekjur 243 m.kr. Hækkun sértekna skýrist einna helst af auknum styrkjum frá Eurostat sem kláruðust á árinu. Þeir námu 134 m.kr. en voru 62 m.kr. árið áður. Sveiflur í þessum tekjuflokki eru jafnan miklar á milli ára. Tekjur vegna sérfræðiþjónustu Hagstofunnar námu 79,4 m.kr. og  lækkuðu um 20,6 m.kr. á milli ára.

 
 

Rekstrargjöld

Heildargjöld ársins námu um 1.986,5 m.kr. með afskriftum en gjöld jukust um 148 m.kr. á milli ára eða um 8%. Stærstu útgjaldaliðir Hagstofunnar eru sem fyrr laun og launatengd gjöld sem námu um 83% af heildargjöldum á árinu. Launakostnaður hækkaði um  72,5 m.kr. á milli ára sem nemur 4,6 % hækkun. Húsnæðiskostnaður er annar stærsti útgjaldaliðurinn og nam hann 6% af heildarkostnaði.

 

Bókfærð eignakaup

Fjárfestingaframlag ársins var 21,1 m.kr. Eignakaup eru færð til eignar og afskrifuð yfir líftíma eignar. Kaupverð varanlegra rekstrarfjármuna nam 17 m.kr. og afskriftir 20,8 m.kr.

 
 

Upplýsingatækni

 
 

Unnið var á árinu að verkefnum sem skilgreind eru í tæknistefnu Hagstofunnar fyrir árin 2021-2023 ásamt áframhaldandi vinnu við að bæta rekstrar- og tækniumhverfi stofnunarinnar.

Tækniráð var stofnað í lok árs 2021 en ráðið er stýrihópur upplýsingatæknimála sem er leiddur af tæknistjóra Hagstofunnar og eiga fagsvið og rekstrarsvið aðild að hópnum. Stýrihópurinn tekur í sameiningu ákvarðanir sem varða tæknistefnu ásamt ákvörðunum er varða upplýsingatæknimál stofnunarinnar til skemmri og lengri tíma. Stýrihópurinn er enn fremur vettvangur til að upplýsa um stöðu og forgangsröðun upplýsingatækniverkefna. Tækniráð fundaði 19 sinnum á árinu þar sem línur voru lagðar fyrir vinnu upplýsingatæknideildar. Mikil ánægja er með aukið upplýsingaflæði á milli sviða og deilda um stöðu og dagskrá tæknimála.

Mikil áhersla var á bakendakerfi og rekstraröryggi á árinu. Mikið af eldri kerfum voru annað hvort uppfærð eða aflögð. Allur vélbúnaður var yfirfarinn til að tryggja aukið rekstraröryggi og er Hagstofan nú vel í stakk búin til að takast á við komandi verkefni.

Upplýsingatæknideildin tók upp nýtt og nútímalegra verkbeiðnakerfi sem kemur til móts við þarfir starfsfólks Hagstofunnar. Kerfinu, sem valið var eftir prófanir ýmissa kerfa, er úthýst eins og lagt var upp með í tæknistefnunni og hefur þegar komið sér vel við að bæta þjónustuna, auka upplýsingaflæðið í verkbeiðnum og stytta afgreiðslutíma. Kerfið gefur góða sýn yfir þau verkefni sem í gangi eru með Kanban-borði þannig að auðvelt er að forgangsraða þeim.

Settir voru upp þjónar til að styðja við Strauminn. Straumurinn (X-Road) er gagnaflutningslag sem er ætlað að auðvelda samskipti á milli upplýsingakerfa á öruggan hátt sem gerir stofnunum kleift að veita stafræna þjónustu. Þjónustur verða svo færðar smátt og smátt yfir í þetta gagnaflutningslag í samvinnu við viðkomandi notendur.

Sjálfvirk auðkenning á milli kerfa í notkun hjá Hagstofunni var sett upp sem eykur öryggi og auðveldar aðgang starfsfólks að þeim.

Unnið er að útvistun upplýsingatæknimála þar sem það á við. Gerðir hafa verið samningar við þjónustuaðila í þeim efnum sem tryggir Hagstofunni aðgang að færustu sérfræðingum í hverjum málaflokki.

Nýjum vef Hagstofunnar var frestað og er áætlað að núverandi vefur verði keyrður áfram í einhvern tíma. Vinna verður lögð í að gera hann nútímalegri 2023.

Settur var upp búnaður til þess að Hagstofan geti haldið utan um rannsóknarþjónustuna. Því verkefni hefur verið úthýst fram til þessa en til að geta aukið og bætt þá þjónustu var niðurstaðan sú að betra væri að keyra það innan stofnunarinnar. Umræddur búnaður getur tekið við margföldu álagi og gert er ráð fyrir aukinni notkun strax árið 2023.

Haldnir voru nokkrir fyrirlestrar og fundir á vegum upplýsingatæknideildar til að deila þekkingu á tæknimálum. Þar má helst nefna röð af SQL-fræðslustundum sem voru vel sóttir af starfsmönnum og þóttu takast vel.

 

Bergur Þorgeirsson

Jóhann Þór Sveinsson