Mannauður

Í lok árs 2022 störfuðu 119 starfsmenn hjá Hagstofunni í 117 stöðugildum. Kynjahlutföll voru jöfn á meðal starfsfólks. Enn er þó kynjamunur þegar horft er til einstakra hópa þar sem karlar eru í meirihluta millistjórnenda og sérfræðinga en konur í meirihluta fagstjóra, skrifstofufólks og spyrla. Meðalaldur starfsfólks er 47 ár og meðal starfsaldur er ríflega 7 ár.

Emma Ásudóttir Árnadóttir, mannauðsstjóri.

 

Á árinu bættust við 15 nýir starfsmenn í hóp fastráðinna hjá Hagstofunni, 60% þeirra voru konur og 40% karlar. Hlutfall háskólamenntaðra er 87% en það er svipað hlutfall og verið hefur undanfarin ár. Þá störfuðu á árinu 68 lausráðnir spyrlar sem unnu 6,8 ársverk við innsöfnun gagna sem er svipað og árið áður.

Stefnumiðuð mannauðsstjórnun

Á sviði mannauðsmála stóð upp úr á árinu vinna við nýja mannauðsstefnu Hagstofunnar. Lagður var grunnur að stefnunni og aðgerðaáætlun til innleiðingar hennar á vinnufundum með starfsfólki og útfærsla síðan unnin í samstarfi stjórnenda. Á fundunum komu skýrt fram þau áhersluatriði sem dregin eru fram í nýrri stefnu en þau eru:

  • samhugur, traust og gagnkvæm virðing í samskiptum

  • þekkingarmiðað og faglegt starfsumhverfi

  • markviss, styðjandi og hvetjandi stjórnun

  • vellíðan og jafnrétti

Stefnan og aðgerðaáætlun voru kynntar á starfsmannafundi 28. september. Stefnt er að því að endurskoða stefnuna að lágmarki á fjögurra ára fresti en aðgerðaráætlun verður unnin fyrir hvert ár fyrir sig.

Meðal fyrstu verkefna undir hatti mannauðsstefnunar sem unnin voru á árinu var undirbúningur fyrir aukna teymisvinnu innan Hagstofunnar og skoðun á hvernig skipulag og stjórnun getur stutt betur við hana. Hafin var vinna við að endurhanna starfsmannasamtöl og var markmiðið í þeirri vinnu að fá sjónarmið sem víðast að þannig að samtölin nýttust bæði starfsfólki og stjórnendum sem best auk þess að styðja við nýja mannauðsstefnu.

Kannanir á meðal starfsfólks um ýmsar hliðar starfsumhverfisins voru gerðar og niðurstöður nýttar til ákvörðunartöku og forgangsröðunar verkefna. Viðmið um fjarvinnu og sveigjanleika í starfi voru endurskoðuð með hliðsjón af nýrri stefnu og ferlar yfirfarnir svo sem ráðningar- og móttökuferlar.

Meðal annarra stórra verkefna á árinu var endurvottunarúttekt á jafnlaunakerfi Hagstofunnar. Hlaut jafnlaunakerfið á ný vottun til þriggja ára sem staðfestir að Hagstofan starfrækir jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur sem settar eru fram í staðlinum ÍST 85:2012 og nær til alls starfsfólks stofnunarinnar. Jafnlaunakerfið styður við launastefnu og jafnlaunastefnu stofnunarinnar.

Fræðsla

Starfsfólk var í auknum mæli á faraldsfæti til að afla sér fræðslu og þekkingar en mikið framboð af fræðslu sem uppfyllir kröfur hagstofa eru í boði hjá Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat). Einnig var eloomi-fræðslukerfið nýtt með auknu aðgengi að vefnámskeiðum, þar með talið á sviði öryggismála og hagnýtrar fræðslu fyrir nýliða hjá Hagstofunni.

Félagslíf

Blásið var nýju lífi í félagslíf starfsfólks Hagstofunnar á árinu. Haldin var fjölmenn árshátíð laugardaginn 9. apríl í hinu glæsilega Gamla bíói. Haustferðin var vel sótt og spreyttu þátttakendur sig í leikjaþrautum í Hveragerði, böðuðu sig í Fontana á Laugarvatni og enduðu daginn í pílu í Reykjavík. Meðal annarra viðburða má nefna pub quiz, spilakvöld, fjöltefli, pókerkvöld, vínsmakk og skreytinga- og búningakeppni í tilefni af hrekkjavöku. Að síðustu má nefna hið fjöruga jólaglögg sem haldið var í desember í húsnæði Hagstofunnar með ljúffengum mat, tónlistaratriðum og karókí.

 

Sumargrill

Jólaglögg

Jólastemning á 3. hæð.