Miðlun

Hagstofa Íslands gefur svo til daglega út fréttatilkynningar árið um kring. Fréttatilkynningarnar tengjast í flestum tilfellum uppfærslum á talnaefni stofnunarinnar og eru þá annað hvort í formi frétta eða stuttra fréttamola en einnig í formi Hagtíðinda eða greinargerða. Svo til alltaf eru fréttatilkynningar gefnar út bæði á íslensku og ensku. Árið 2022 gaf Hagstofan út 753 fréttatilkynningar, þar af 382 íslenskar og 371 enskar.

Þorsteinn Þorsteinsson, deildarstjóri samskipta og miðlunar.

 

Útgáfum fækkaði

Útgáfum fækkaði um 76 á milli áranna 2021-2022 eftir fjölgun tvö ár í röð þar á undan. Fækkunin var aðallega í útgáfum sem tengdust tilraunatölfræði en þær höfðu einmitt aukist til muna á meðan að á kórónuveirufaraldrinum stóð.

Á myndinni sést þróunin í íslenskum útgáfum árin 2019-2022 eftir mánuðum.

Aukin vefumferð

Vefur Hagstofunnar, hagstofa.is, er helsti samskiptamiðill stofnunarinnar. Fjöldi notenda vefsins jókst verulega á milli ára, eða um tæp 37% á árinu 2022, og fór úr 324.211 í 442.640. Notendum fjölgaði þannig um rúmlega 118 þúsund á milli ára eins og sjá má á myndinni að neðan. Þetta er mesta fjölgun á heimsóknum frá því mælingar hófust á vef Hagstofunnar. Líklegasta skýringin er aukin umferð í tengslum við þau gagnvirku gröf (e. Datawrappper) sem byrjað var að birta í fréttum stofnunarinnar í lok ársins 2021.

Vinsælustu síðurnar

Líkt og fyrri ár var á árinu 2022 mest aðsókn að síðunni um helstu vísitölur að forsíðunni undanskilinni. Hér að neðan má sjá tíu vinsælustu síðurnar á vef Hagstofunnar.

Fréttaáskrift

Mögulegt er fyrir notendur að gerast áskrifendur að einstökum efnisflokkum Hagstofunnar og fengið tilkynningar með tölvupósti þegar nýjar fréttatilkynningar eru gefnar út. Fjöldi áskrifenda í lok ársins 2022 var 1.225 og hafði þeim fjölgað um tæp 8% á árinu.

 

Samfélagsmiðlar

Fylgjendum Hagstofunnar á samfélagsmiðlum fjölgar stöðugt eins og myndin sýnir en á þessum miðlum er birt fjölbreytt efni sem höfðar fyrst og fremst til almennra notenda.

Viðbrögðum á samfélagsmiðlum þar sem Hagstofan kemur við sögu hefur fjölgað mikið. Hér er um 30% aukningu að ræða á milli ára sem er í takt við aukin umsvif Hagstofunnar á samfélagsmiðlum.

 

Aukin umfjöllun um efni Hagstofunnar

Íslenskir fjölmiðlar voru sem fyrr iðnir við að miðla fréttatilkynningum Hagstofunnar áfram til lesenda sinna, hlustenda og áhorfenda. Athyglisvert er í því ljósi að Hagstofan gaf út samtals 382 íslenskar fréttatilkynningar og uppfærslur á síðasta ári á sama tíma og innlendir fjölmiðlar framleiddu 2.222 fréttir þar sem skírskotað var til efnis Hagstofunnar.

Þetta eykur enn frekar dreifinguna á því efni sem Hagstofan gefur út og því er um margföldunaráhrif að ræða. Fréttum af þessu tagi fjölgaði um 353 á milli ára eða um 19% eftir samdrátt á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð. Líklegt verður að teljast að sá möguleiki fyrir miðlana að birta myndrit Hagstofunnar á eigin vef hafi stuðlað að aukinni umfjöllun um útgáfur stofnunarinnar.

 

Útgáfa myndbanda

Hagstofan sendi frá sér tvö myndskeið á árinu sem var dreift á vef stofnunarinnar, Twitter, Facebook og Youtube.

Fyrra myndskeiðið var gefið út í tilefni af  Evrópska tölfræðideginum, sem haldinn var hátíðlegur fimmtudaginn 20. október, en markmiðið með deginum var að vekja athygli á þýðingu og mikilvægi evrópskra hagtalna fyrir samfélög álfunnar og ekki síst almenna borgara. Í myndskeiðinu er varpað ljósi á það hvernig verðbólga hefur áhrif á líf almennings en há verðbólga herjaði á heimsbyggðina árið 2022.

Seinna myndskeiðið var birt á milli jóla og nýárs og í því var farið yfir þróun helstu hagtalna á árinu.

Upplýsingaþjónusta

Starfsfólk samskipta- og miðlunardeildar svarar fyrirspurnum og leiðbeinir notendum um vef Hagstofunnar. Erindum frá notendum fer fjölgandi með ári hverju.