Gagnasöfnun

Söfnun gagna er ein af grunnstoðum hagskýrslugerðar og voru rúmlega 60 miðlægar gagnasafnanir hjá Hagstofunni á árinu 2022. Hagstofan leggur áherslu á að draga úr svarbyrði einstaklinga og fyrirtækja og notar í því skyni stjórnsýsluskrár þar sem þess er kostur. Stofnunin stendur einnig fyrir eigin gagnasöfnun á meðal einstaklinga, heimila, stofnana og fyrirtækja í þeim tilgangi að geta staðið við lagalegar skuldbindingar um hagskýrslugerð.

Lárus Blöndal, deildarstjóri gagnasöfnunar.

 

Hagstofan stendur að umfangsmiklum úrtaksrannsóknum ár hvert. Heildarföldi þátttakenda í úrtaksrannsóknum um hagi einstaklinga og heimila var tæplega 24 þúsund á árinu eða um 8% landsmanna 16 ára og eldri. Svörun í þessum rannsóknum var að jafnaði um 55%.

Umfangsmestu einstaklings- og heimilisrannsóknir Hagstofunnar eru rannsókn á stöðu fólks á vinnumarkaði og rannsókn á útgjöldum heimilanna en báðar þessar rannsóknir eru framkvæmdar allt árið um kring. Þá rannsakar Hagstofan ferðavenjur landsmanna ársfjórðungslega og árlega lífskjör í landinu og notkun einstaklinga og heimila á tækjabúnaði og neti.

Auk þessara fimm einstaklingsrannsókna hóf gagnasöfnun framkvæmd á rannsókn á námi og símenntun og rannsókn á notkun á miðlum, menningu og áhugamálum landsmanna. Þessar rannsóknir ásamt ferðavenjurannsókninni eru framkvæmdar í fjölviðmóti þar sem þátttakendum er boðið að taka þátt á netinu áður en haft er samband símleiðs.

Tvær úrtaksrannsóknir á meðal fyrirtækja voru gerðar á árinu. Annars vegar rannsókn á lausum störfum og hins vegar á rannsóknum og þróun á sviði fyrirtækja, háskólastofnana, opinberra stofnana og sjálfseignarstofnana.

Hagstofan stendur einnig að víðtækri gagnasöfnun á meðal fyrirtækja, annarra rekstraraðila og sveitarfélaga. Þar á meðal er söfnun gagna fyrir launarannsókn, söfnun gagna í upplýsingaveitu sveitarfélaga, söfnun upplýsinga um gistinætur, söfnun vegna þjónustuviðskipta við útlönd, söfnun vegna vísitölu neysluverðs og byggingarkostnaðar, söfnun ýmissa gagna fyrir þjóðhagsreikninga og um starfsemi skóla, mennta- og menningarstofnana. Heildarfjöldi skilaaðila í þessum gagnasöfnunum er rúmlega sex þúsund og svörun á bilinu 85-100%.