Norræna tölfræðingamótið

Norræna tölfræðingamótið var haldið í Hörpu dagana 22. til 24 ágúst.  Þetta var í 29. skipti sem mótið er haldið en hagstofur Norðurlandanna skiptast á að sjá um mótið þriðja hvert ár. Mótið var síðast haldið á Íslandi árið 2007.

Vefur mótsins

Frá setningu Norræna tölfræðingamótsins 2022.

 

Mótið var sett af Ólafi Hjálmarsyni hagstofustjóra þar sem hann jafnframt útskýrði yfirskrift mótsins „facts on the fly“ en því var ætlað að fanga áskoranir hagstofanna við að framleiða og miðla áreiðanlegum hágæðaupplýsingum eins hratt og mögulega. Á þetta hafði sérstaklega reynt í kringum kórónuveirufaraldurinn. 

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, setti tónninn fyrir mótið með því að veita þátttakendum innsýn í mikilvægi hagtalna fyrir stjórnmálamenn og framkvæmdavaldið sem eru stórnotendur opinberrar tölfræði. Í kjölfarið fylgdu fjölbreyttir fyrirlestrar í fjórum málstofum þar sem fjallað var um allar hliðar hagtölugerðar, allt frá áskorunum sem fylgja nýjum gagnasöfnunaraðferðum til þess hvernig hagstofur geta stutt við gagnavistkerfi framtíðarinnar.

Mótið var mjög vel sótt og gestir í heildina tæplega 300. Haldin voru 48 erindi og fjórar hálfs dags vinnustofur auk þess sem boðið var upp á örfyrirlestra á milli dagskárliða þar sem þátttakendur gátu tekið þátt í eldheitum umræðum.

Félagsdagskrá mótsins var einnig mjög vel heppnuð. Haldinn var opnunarkokteill í Hvalasafninu þar sem félagsmálaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson hélt ræðu og bauð gesti velkomna til Íslands. Þá var haldinn glæsilegur hátíðakvöldverður í Listasafni Reykjavíkur og að honum loknum flykktust mótsgestir í karókíkeppni á ókunnum bar en sambærilegur viðburður hafði vakið mikla lukku þegar mótið hafði verið haldið í Helsinki 2019.

Áður en mótinu var slitið var mótsgestum boðið upp á kynningu frá tölvuleikjafyrirtækinu CCP þar sem fjallað var um hagtölugerð í sýndarheimum tölvuleiksins EvE Online. Leikurinn hefur mikla hagfræðilega tengingu og veitir innsýn í það hvernig hægt er að standa að hagtölugerð ef öllum heiminum er stjórnað.  Að kynningu lokinni ávarpaði Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri gesti og þakkaði þeim fyrir þátttökuna.  Að lokum afhenti hann hagstofustjóra Danmerkur, Birgitte Anker, „den nordiska anden“ sem er gul baðönd og tákngervingur tölfræðingamótsins. Ætlunin er að halda næsta mót í Danmörku árið 2025 og Birgitte því að taka við kyndli norrænnar tölfræðisamvinnu ef svo má að orði komast.

Hagstofustjórafundur

Að tölfræðingamótinu loknu var haldinn norrænn hagstofustjórafundur á Hótel Geysi í Haukadal.  Hefð er fyrir því að nýta tækifærið þegar framkvæmdastjórnir allra norrænu hagstofanna eru saman komnar til fundarhalda og til að samstilla norræna samvinnu. 

Á fundinum var fjallað um aukna samvinnu á sviði miðlunartóla fyrir gagnabanka hagstofanna, áskoranir í kringum örgagnaþjónustu til rannsókna og fjármögnun og samstarf um nýsköpun hjá hagstofunum. Að auki gafst hagstofunum tækifæri til þess að leita ráða hjá annarri norrænni hagstofu og ráðgjöfin svo kynnt á fundinum.  Fundurinn var ákaflega vel heppnaður og dró fram hversu mikilvæg og ábatasöm norræn samvinna er fyrir hagstofur Norðurlandanna.

 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Þorsteinn Aðalsteinsson

Starfsmenn Hagstofunnar fylgjast með af einbeitingu.

Ólafur Hjálmarsson afhendir öndina til Birgitte Anker, hagstofustjóra dönsku Hagstofunnar.